Monday, April 7, 2014

Pistill eftir Selfoss mót 7.fl. kv.

Allt tekur enda um síðir og svo var einnig með Selfossmótið. Flestar, ef ekki allar, hefðu svo  sannarlega viljað vera eina nótt í viðbót. Þetta var svo gaman.

Eins og áður hefur komið fram hjá mér og verður aldrei of oft sagt er stórt skref fyrir börn á þessum aldri að fara og keppa á móti. Hvert og eitt fer á sínum forsendum og markmiðin einskorðast við hvert og eitt barn. Á þessum aldri er sigur fyrir sum börn að hreinlega geta farið inn á völlinn, fyrir önnur að skora eftir gegnumbrot og fyrir enn önnur að skjóta.

Við þjálfararnir setjum markmið fyrir svona mót sem snúa að hverri stúlku og satt best að segja fengum það út úr mótinu sem við ætluðum okkur. Stelpurnar stóðu sig ótrúlega vel innan vallar sem utan og okkur og ykkur til sóma.

Ég hef farið á ansi mörg mót um ævina en man ekki eftir því áður að heimþráin hafi ekki skotið rótum í hópnum og einhver tár fallið af þeim sökum.  Ekkert slíkt gerðist í þessari ferð og það er með ólíkindum í svona stórum hópi. Hörkuduglegar þessar stelpur okkar.

Nokkrir hlutir fundust í skólastofunum fyrir heimferð. Fjólublá Cintamani flíspeysa, plasthlutur sem tilheyrir pumpu og fallegir fingravettlingar. Við verðum með þessa hluti á æfingum þar til eigendur finnast.

Við ykkur súpermömmur sem komu með okkur langar mig að segja stórt TAKK þó það sé ekki nóg. Þið stóðuð ykkur ótrúlega vel og það er ekki mikið mál að fara í keppnisferð með svona stóran hóp ef þið eruð með. Þið sem hjálpuðuð til á allan annan hátt eins og með því að útvega  bakkelsi og dykki  eigið auðvitað þakkir skildar. Þetta er svo lítið mál allt saman þegar svona margir koma að málum. 

Sem fyrr söfnum við myndum, endilega látið okkur fá myndir ef þið eigið.  Fylgist með myndum af stelpunum ykkar og merkið svo fjölskyldan geti séð á Facebook ÍR Handbolta


Myndaalbúm á Facebook ÍR Handbolta #irhandbolti

Takk fyrir að treysta okkur fyrir stelpunum ykkar. Nú höldum við áfram að æfa og á fimmtudaginn
fáið þið áætlun sem gildir út tímabilið sem er jú óðum að styttast.




No comments:

Post a Comment